-6.3 C
Selfoss

Fjölmenning í Árborg

Vinsælar fréttir

Árborg er orðið mjög fjölmenningarlegt sveitarfélag. Samkvæmt nýjustu upplýsingum frá Hagstofu Íslands (með tölum til og með 3. ársfjórðungs 2020) hefur fjöldi erlendra ríkisborgara tvöfaldast á síðustu fimm árum og nú búa hér um 830 manns með erlent ríkisfang auk fjölda íbúa með fjölmenningarlegan bakgrunn sem eru þegar komnir með íslenskan ríkisborgararétt. Þeir koma úr mismunandi áttum, eru með fjölbreyttar auðlindir – reynslu, menningu og menntun og auðga þannig samfélagið. Sem dæmi má nefna að einstaklingar með fjölbreyttan bakgrunn vinna á öllum sviðum sveitarfélagsins og taka þátt í að byggja upp öflugt sveitarfélag. Með þessum hætti sýnir sveitarfélagið gott fordæmi fyrir önnur sveitarfélög sem og aðrar stofnanir og einkafyrirtæki.

Mynd 1. Mannfjöldi í sveitarfélaginu Árborg 2010-2020

Heimild: Hagstofa Íslands (2021). Mannfjöldi eftir sveitarfélögum, kyni, ríkisfangi og ársfjórðungum 2010-2020.

Í leik- og grunnskólum Árborgar eru margir nemendur með fjölmenningarlegan bakgrunn og uppruni þeirra er mjög mismunandi. Í flestum tilfellum tala báðir foreldrar annað tungumál en íslensku en einnig eru nemendur þar sem annað foreldri þeirra er með íslensku sem móðurmál. Í leik- og grunnskólum sveitarfélagsins eru töluð samtals 27 tungumál. Stærsti hópurinn eru börn þar sem foreldrar tala pólsku og síðan koma börn þar sem foreldrar þeirra tala ensku.

Á grundvelli upplýsinga frá desember 2020 á skólaárinu 2020-2021 í grunnskólum sveitarfélagsins Árborg eru 187 nemendur með fjölmenningarlegan bakgrunn eða 12% af nemendafjölda. Í leikskólum eru 83 nemendur með fjölmenningarlegan bakgrunn og eða 15% af nemendafjölda.
Það er töluverður munur á milli leikskóla hvað varðar fjölda nemenda með fjölmenningarlegan bakgrunn. Í leikskólanum Árbæ er hlutfallið 26% en í leikskólanum Álfheimum – 20%. Hlutfallið í grunnskólum sveitarfélagsins er svipað, í Barnaskólanum á Eyrarbakka og Stokkseyri er hlutfallið 23% og í Vallaskóla er það 16%.

Frá skólaárinu 2016-2017 hefur verið veruleg aukning í fjölda nemenda með fjölmenningarlegan bakgrunn í leik- og grunnskólum sveitarfélagsins en þann vetur voru 115 nemendur í grunnskólum og 56 börn í leikskólum sveitarfélagsins með fjölmenningarlegan bakgrunn.

Mynd 2.

Heimild: Aneta Figlarska (2021).

Mynd 3.

Heimild: Aneta Figlarska (2021).

Á síðustu árum hefur nokkrum samstarfsverkefnum verið hrint af stað í sveitarfélaginu sem stuðla að aukinni vellíðan og námsárangri nemenda með fjölbreyttan bakgrunn. Árið 2015 var stofnaður faghópur til að vinna m.a. að áætlunargerð og stefnumótun fyrir fjöltyngda nemendur skólanna og fjölskyldur þeirra. Hópurinn var skipaður fulltrúum frá öllum leik – og grunnskólum sveitarfélagsins og fulltrúum frá skólaþjónustu og félagsþjónustu og hlaut nafnið Fjölmenningarteymi. Hópurinn hefur fundað reglulega síðan, en árið 2020 bættust fulltrúar frá Fjölbrautaskóla Suðurlands við. Fjölmenningarteymið hefur unnið meðal annars að gerð Fjölmenningarhandbókar og samþættingu þjónustunnar í sveitarfélaginu og hefur þetta stuðlað að auknu faglegu samstarfi milli skólastiga.

Frá haustinu 2016 hafa sveitarfélögin Árborg, Hafnarfjörður og Reykjanesbær verið í faglegu samstarfi um þýðingu og staðfæringu á stöðumatstæki sem hefur verið notað með góðum árangri í Svíþjóð. Stöðumatið er aðgengilegt öllum á vef Menntamálastofnunar. Markmið með Stöðumatinu er að styðja við vinnu skólanna varðandi mat á þekkingu nemenda af erlendum uppruna þannig að skólinn geti undirbúið og aðlagað kennslu að þörfum og þekkingu nemandans. Stöðumatið er lagt fyrir nemanda á hans sterkasta tungumáli . Efnið er ætlað grunnskólum en það er einnig hægt að nota á framhaldsskólastigi. Stöðumatið fyrir leikskóla er í undirbúningi.

Á árunum 2018-2019 voru Skólaþjónusta Árborgar og Skóla- og velferðarþjónusta Árnesþings í góðu faglegu samstarfi. Haustið 2019 voru haldnir fræðslufundir ætlaðir foreldrum af erlendum uppruna sem eiga barn í leikskóla. Tilgangurinn var að foreldrar fái tækifæri til að fræðast um leikskólastarf og helstu áherslur í íslenskum leikskólum. Einnig hefur verið fræðslufundur fyrir starfsfólk af erlendum uppruna sem starfa í leikskólum. Allir ofangreindir fræðslufundir fóru fram á íslensku, pólsku og ensku.

Vorið 2017 byrjaði samstarfsverkefni Félags eldri borgara, fjölskyldusviðs og grunnskóla Árborgar sem ber heitið „Lærum saman“. Verkefninu er ætlað að efla lestur tví- og fjöltyngdra nemenda úr 4.-7. bekk í grunnskólum Árborgar sem og aðstoða og styðja við þeirra námframvindu. Verkefninu er þannig háttað að sjálfboðaliðar frá Félagi eldri borgara bjóða fram aðstoð sína einu sinni í viku. Á svipuðum nótum, haustið 2019 byrjaði samstarfsverkefni Rauða Krossins, fjölskyldusviðs og grunnskóla Árborgar sem ber heitið „Lesum saman“. Meginmarkmið verkefnisins er að styðja við lestur tvítyngdra nemenda sem eru í 1. -3. bekk í grunnskólum Árborgar og í þessu tilfelli eru það sjálfboðaliðar frá Rauða Krossinum sem bjóða fram stuðninginn vikulega í grunnskólum á Selfossi.
Öll fyrrnefnd samstarfsverkefni eru til hagsbóta fyrir skólastarfið í anda skóla margbreytileikans og menntunar fyrir alla.

Ýmis þjónusta stendur einnig til boða fyrir fullorðið fólk með fjölbreyttan bakgrunn á vegum sveitarfélagsins sem og annarra stofnana og félagasamtaka. Hér má nefna Bókasafn Árborgar með úrval bóka og tímarita á mörgum tungumálum, Klúbbinn Strók sem býður upp á fjölbreytta dagskrá fyrir alla sem vilja halda sér í bata og vera virkir þátttakendur í samfélaginu, hittingar á vegum Rauða Krossins og íslenskukennslu sem Fræðslunet Suðurlands býður upp á. Að vísu hafa sóttvarna-ráðstafanir vegna COVID-19 leitt til skertrar þjónustu sl. ár, en á sama tíma sýnt að á óvissutímum sem þessum sé samstaðan, þjónusta og upplýsingagjöf fyrir alla íbúa nauðsynleg.

Í þarfagreiningu sem útbúin var í október 2020 af félagsráðgjöfum á fjölskyldusviði sveitarfélagsins – Heklu Dögg Ásmundsdóttur og Margréti Önnu Guðmundsdóttur ásamt Önnu Woźniczka kom í ljós að huga þurfi enn betur að stöðu íbúa með fjölbreyttan bakgrunn. Helstu áskoranir eru atvinnuleysi og félagsleg einangrun, sérstaklega meðal einstaklinga sem eiga ekki börn á skólaaldri eða/og búa einir. Skortur á upplýsingum um réttindi í íslensku samfélagi og rangar hugmyndir um- eða skortur á trausti til stofnana sem byggir oft á þekkingarleysi eða neikvæðri reynslu úr heimalandi getur einnig verið hindrun að aukinni þátttöku og eflingu íbúa af erlendum uppruna.

Okkur þótti því tímabært að þróa upplýsingasíðu sem geti nýst bæði einstaklingum með fjölbreyttan bakgrunn sem og þeim sem starfa í málefnum innflytjenda eða einfaldlega eiga samstarfsmenn, nágranna eða fjölskyldumeðlimi með fjölbreyttan bakgrunn. Að verkefninu stóðu höfundar þessar greinar, Aneta og Anna auk Hólmfríðar Hákonardóttur sem hefur einnig séð um vefsíðugerð fyrir alla leik- og grunnskóla Árborgar. Síðan í október 2020 höfum við fundað reglulega til að ræða um vefsíðu og hefja vinnu við gerð hennar. Úr því varð til vefsíðan Fjölmenning í Árborg (fjolmenning.arborg.is). Hún skiptist í fimm málaflokka: Íbúar í Árborg, Samfélag, Atvinna, Menntun og Heilsa, þar sem hægt er að finna grunnupplýsingar um ýmsar stofnanir, þjónustu og réttindi sem og hlekki á vefsíður með ítarlegri upplýsingum. Dæmi um slíkar upplýsingar eru hlekkir á vefsíður um tómstundir fyrir alla aldurshópa í sveitarfélaginu, skilgreining á lífeyrisjóðum, lýsing á leiðum til að öðlast viðurkenningu á námi erlendis frá, útskýringar á réttindum starfsmanna og reglur um bólusetningar barna. Við efnisval fyrir vefsíðu lögðum við áherslu á að innihald vefsíðunnar verði gagnlegt og fræðandi fyrir alla aldurshópa. Vefsíðan inniheldur einnig mikilvægt efni t.d. fyrir kennara nemenda með fjölmenningarlegan bakgrunn og þá sem starfa að málefnum innflytjenda. Auk þess munu á vefsíðunni birtast helstu fréttir sem varða innflytjendur sem og upplýsingar um hátíðir og áhugaverða viðburði, einkum á vegum einstaklinga með fjölbreyttan bakgrunn. Vefsíðan er aðgengileg á þremur tungumálum, en við ákvörðun um val á tungumálum var tekið tillit til algengustu tungumála sem töluð eru af íbúum með fjölbreyttan bakgrunn í sveitarfélaginu. Við þýddum alla texta yfir á ensku og pólsku og settum einnig inn efni á borð við upplýsingarbæklinga sem unnir voru af Fjölmenningarteyminu og eru þegar til á ofangreindum tungumálum.

Samhliða vefsíðunni hefur verið stofnaður Facebook hópur með upplýsingum á ensku og íslensku: Fjölmenning í Árborg í umsjón Önnu og Margaritu Hamatsu, deildastjóra á leikskólanum Álfheimum og byggir á svipuðum hóp Polacy w gminie Árborg sem stofnuð var á síðasta ári af Anetu Figlarska og Mörtu Kuc, þjónustufulltrúa Bárunnar og ætluð er pólskumælandi íbúum Árborgar. Áherslan er lögð á gott og virkt upplýsingaflæði á fyrrnefndum tungumálum um mál sem tengjast búsetu, atvinnu, menntun á Íslandi og einnig fréttir sem tengjast sérstaklega starfsemi sveitarfélagsins Árborg.

Við vonumst til þess að vefsíðan Fjölmenning í Árborg muni nýtast sem flestum og við hvetjum alla til að kíkja á https://fjolmenning.arborg.is/ og deila hlekknum með öðrum. Ábendingar um hvernig betrumbæta megi síðuna eru einnig velkomnar.

Aneta Figlarska, kennsluráðgjafi í fjölmenningu
Anna Katarzyna Wozniczka, verkefnastjóri í málefnum flóttamanna

Nýjar fréttir