-6.2 C
Selfoss

Sumartónleikar í Skálholti

Vinsælar fréttir

Sumartónleikar í Skálholti fara nú fram í 46. sinn 1.-11. júlí og er yfirskrift hátíðarinnar í ár „kynslóðir“. Við teflum saman mismunandi kynslóðum tónlistarfólks og fögnum þeim kynslóðum sem hafa mótað Sumartónleika og þeim sem munu móta framtíð þeirra. Það er hátíðinni einnig hjartans mál að veita nýliðum í tónlistarlífinu brautargengi.

Á Sumartónleikum mætist gamalt og nýtt, nútímatónlistin mætir tónlist fyrri alda. Barokk og baðstofustemning, tilraunir og innsetningar, staðartónskáld og frumflutningar. Hér á sér stað lifandi samtal við sögu og menningu Skálholts.

Opnunartónleikar fara fram á fimmtudag, 1. júlí en á miðvikudag, 30. júní fer fram upptaktur að hátíðinni með nýliðum úr tónlistarlífinu, núverandi nemum við LHÍ sem og nýútskrifuðum.

Hér má sjá dagskrá fyrir fyrri viku Sumartónleika, nánari upplýsingar má finna á heimasíðu hátíðarinnar www.sumartonleikar.is

Opnunartónleikar: Cauda Collective, Haukur og Eygló
1. júlí kl 20:00

Á opnunartónleikum Sumartónleika 2021 munu Cauda Collective flytja fyrir okkur tvo strengjakvartetta eftir staðartónskáldin Hauk Tómasson og Eygló Höskuldsdóttir Viborg. Cauda Collective mun flétta dagskrána saman með nýjum útsetningum sínum á Þorlákstíðum. Hér mætir ný tónlist aldagamalli tónlist með nýrri túlkun.

Gadus Morhua: Biskupar og baðstofur
2. júlí kl 21:00

Samhljómur langspilsins og barokksellósins er útgangspunktur tónlistarhópsins Gadus Morhua. Tónlistarsköpun hópsins einkennist því af einhvers konar þjóðlagausla, þar sem forneskjulegur hljómur gamla baðstofuhljóðfærisins og þokkafullir meginlandstónar barokksellósins skapa einhvers konar baðstofubarrokk. Á tónleikunum í Skálholti í sumar einbeitum við okkur að samruna kvöldvökunnar í baðstofum tungnanna og heimsmenningar biskupsstólsins.

Fjölskyldutónleikar: Lítil saga úr orgelhúsi
3. júlí kl 13:00

Bergþór Pálsson og Guðný Einarsdóttir flytja tónlistarævintýri fyrir börn og foreldra. Sögunni er ætlað að kynna orgelið á skemmtilegan hátt fyrir börnum en jafnframt fjallar hún um hversu mikilvægt það er að geta búið í sátt og samlyndi þó enginn sé eins. Sagan er eftir Guðnýju Einarsdóttur, organista og tónlistina gerði Michael Jón Clarke.

Fjölskylduviðburður: Orgelkrakkar í Skálholti
3. júlí kl 14:00

Orgelkrakkar er listgjörningur fyrir börn sem samanstendur af byggingarlist og tónlistarflutningi. Hópur þátttakenda skemmtir sér konunglega við það að setja saman orgelið, pípu fyrir pípu, raða nótum og tengja við vindhlöðu, setja saman orgelhúsið og leika á orgelið. Stundin sem tekur klukkutíma er ætluð krökkum á aldrinum 7-12 ára. Umsjón með stundinni hefur Guðný Einarsdóttir

Una: Partítur plús
3. júlí kl 16:00

Partítur plús er verkefni sem hófst í Gröndalshúsi í Grjótaþorpinu í Reykjavík sumarið 2020. Einleikspartítur Johanns Sebastians Bach fyrir fiðlu eru þrjár talsins, í h moll, d moll og E dúr. Í Gröndalshúsi fékk ég fiðlu Benedikts Gröndal til að spinna út frá hverri partítu, en í Skálholtskirkju kem ég með eigið hljóðfæri sem ég nota í frumsamdan spuna eftir hvert verk Bachs.

Norrænt ekkó: Bach og Melodia Sacra
4. júlí kl 14:00

Hrífandi messa Bach í A-dúr og sveiflandi dans Roman -hins sænska Händel –  kallast á við aldagamla íslenska sálma úr handritinu Melodia Sacra. Saman við þetta blandast svo glæný íslensk tónlist, sem hljómar þó kunnuglega, þar sem hún er byggð á stefjum úr hinu forna handriti.

Norrænt ekkó: Roman – hinn sænski Händel
4. júlí kl 16:00

Hin dansk/sænska Camerata Öresund og finnska barokksveitin Ensemble Nylandia ferðast nú til Íslands til samstarfs við íslenska sönghópinn Cantoque ensemble sem hefur sérhæft sig í flutningi nýrrar tónlistar og barokktónlistar. Sveitirnar flétta hér saman þýsk-norrænar barokkperlur við íslenska sönghefð og nýja íslenska tónlist.

Kk. Ásbjörg Jónsdóttir og Birgit Djupedal

Listrænir stjórnendur og framkvæmdarstjórar // Artistic directors and managers
Sumartónleikar í Skálholti // Skálholt Summer Concert

Ásbjörg – +354 8678965 – asbjorgjons@gmail.com
Birgit – +47 41779994 – birgitdjupedal@gmail.com

Homepage – http://www.sumartonleikar.is/
Facebook – https://www.facebook.com/sumartonleikar.skalholt/
Instagram – @sumartonleikar.skalholt

 

Nýjar fréttir