1.7 C
Selfoss

Sjö kandídatar fögnuðu námslokum á háskólahátíð

Vinsælar fréttir

Háskólafélag Suðurlands hefur það fyrir sið að blása til háskólahátíðar síðari hluta júnímánaðar ár hvert, og samfagnar þá með þeim sem eru að ljúka háskólaprófi og hafa notið þjónustu félagsins, ýmist varðandi prófaþjónustu og/eða lesaðstöðu. Að þessu sinni mættu sjö kandídatar í Fjölheima og fögnuðu námslokum með fjölskyldum sínum og starfsfólki félagsins. Í snjöllum ávörpum tveggja brottfarenda við athöfnina var varpað skemmtilegu ljósi á mikilvægi þjónustu félagsins. 

Í ávarpi Sigrúnu Ernu Kristinsdóttur kom m.a. þetta fram:

Ég er að brautskrifast með BS-gráðu í sálfræði frá Háskóla Íslands, nám sem er alfarið kennt í staðnámi. Því fylgir að kennslan er ekki aðgengileg hvar sem er á landinu og nemendur bera sjálfir ábyrgð á mætingu og ástundun, hvort sem það eru fyrirlestrar eða lokapróf og sérstakt leyfi þarf til að breyta því. Fyrir okkur hér á Suðurlandinu sem erum í slíku námi fylgir því oft aukinn akstur og meira álag. Það verður minni tími til að læra heima og tímastjórnun breytist í nýtt áhugamál.

Að gefnu tilefni vil ég hrósa Fjölheimum og starfsfólkinu fyrir þá góðu þjónustu sem hér er veitt. Hún er mikilvægur liður í að efla jöfn tækifæri til náms. Að geta tekið lokapróf í heimabyggð er eitt af þeim stóru skrefum sem hér hafa verið tekin, og fyrir það vil ég þakka. Vonskuveður skall á í desember 2019 einmitt þegar ég þurfti að taka lokapróf og mig langar að minnast aðeins á þá reynslu. Fjölheimar eru til húsa í gamla grunnskólanum mínum, og ég verð að viðurkenna að það var sérkennileg upplifun að ganga hér inn í þeim tilgangi að þreyta lokapróf frá Háskóla Íslands. Í móttökunni varð ljóst að einhver mistök höfðu orðið og ég var send upp á skrifstofu. Á móti mér tók Sigurður, sem var skólameistarinn minn í Fjölbrautaskólanum. Svo óheppilega vildi til að prófskráningin frá prófstjóra Háskólans hafði ekki skilað sér, með öðrum orðum prófið mitt var týnt! Á þessum tímapunkti var mér allri lokið og prófkvíðinn, sá armi þrjótur, var að ná yfirhöndinni. En Sigurður var pollrólegur, enda þaulvanur skólastjórnandi. Hann bauð mér að setjast fram og slaka á, rétt á meðan hann fyndi út úr þessu. Nú, svo tók ég prófið í gömlu smíðastofunni minni og allt fór vel að lokum, ég fékk meira að segja fyrstu einkunn í því prófi. 

Í ávarpi Júlíu Káradóttur kom m.a. fram:

Haustið 2016 byrjaði ég í Háskóla Íslands. Mæti mjög spennt fyrir komandi önn og inní þennan stóra skóla með fullt af öðru fólki sem ég hafði aldrei hitt. Ég rataði ekki um gangana en fékk aðstoð við að komast þangað sem þurfti. Nam staðar fyrir framan eina af kennslustofunum og leit inn; Vá, þetta var eins og stór bíósalur og hann var fullur af fólki. Þetta var yfirþyrmandi fyrir landsbyggðarbarnið mig, átti ég að fara læra með öllu þessu fólki. Tala fyrir framan allt þetta fólk? Fyrsti tíminn kláraðist og ég komst upp með að tala sem minnst, kom heim og skráði mig úr áfanganum. Í þessum áfanga áttum við að læra framsögn og ég var ekki tilbúin í það fyrir framan svona marga. Ég fann mig ekki í þessum stóra hópi, kynntist ekki samnemendum mínum vel. En ég kláraði þau tvö námskeið sem ég var líka skráð í en ákvað að halda ekki áfram eftir það. Ýtti því til hliðar að mig langaði að læra og fór að huga að öðru. 

Eignaðist barn en langaði alltaf að fara í skóla en þorði ekki. Sá svo auglýsingu frá Háskólafélagi Suðurlands og Háskóla Íslands. Fagháskólanám í leikskólakennarafræðum kennt á Selfossi, ég varð strax hrifin af hugmyndinni að geta aðlagast skólakerfinu á rólegan hátt og í fámennum hópi. Í ágúst 2018 byrjuðum við og eftir fyrsta tíma var eins og við hefðum alltaf þekkst. Starfsmenn Fjölheima þar sem við hittumst, kennarar sem komu að náminu; allt fagmannlegt og frábært fólk sem sýndi skilning í öllum þeim aðstæðum sem upp komu. Unnið var að því að finna lausnir á því að allir ættu aðgengi að náminu á hátt sem hentaði hverjum og einum. En fyrst og fremst var þetta skemmtun, það var gaman að læra í fyrsta skipti í mörg ár. Við lærðum um grunnþætti náms, lærðum hvernig væri best að læra, afla sér upplýsinga, leita að heimildum, ritun, framsögn. Hefur það hjálpað heilmikið með áframhaldandi nám að vera með grunninn á hreinu. Við hlógum og höfðum gaman í hverju tíma. Kynntumst bæði innan skólans og eins utan skóla. Þegar önninni lauk fórum við í Háskólann og það var mikill munur að fara þangað með samnemendum sem ég þekkti og var búin að vera með heila önn. Þetta var ekki eins yfirþyrmandi því ég vissi að með mér væru þeir sem ég var búin að kynnast. Það hefur hjálpað með það nám sem ég hef lokið og mun án efa halda áfram með mitt nám með mínum frábæru samnemendum frá því árið 2018. 

Takk kærlega fyrir mig Háskólafélag Suðurlands, að byrja fagháskólanám í leikskólakennarafræðum hefur hjálpað að láta draum minn rætast, að verða einn daginn það sem mig hefur alltaf langað að verða; leikskólakennari.

Nýjar fréttir