-4.8 C
Selfoss

Uglumyndir Halldórs tóku flugið á Facebook

Vinsælar fréttir

Áhugaljósmyndarinn, náttúrukarlinn og fangavörðurinn Halldór Páll Kjartansson á Eyrarbakka hefur fylgst með branduglu sem hefur gert sig heimakomna á svæði við suðurströndina. Ekki eru gefnar nánari upplýsingar um það hvar ugluna er að finna, en margir hafa óskað eftir því að fá nákvæma staðsetningu. Það yrði til þess að ágangur á fuglinn yrði meiri en góðu hófi gegnir svo við látum það liggja á milli hluta. Það má með sanni segja að myndir af uglunni hafi tekið á loft á Facebook en margir hafa lofað glæsilegar myndir Halldórs Páls af uglunni og ungum hennar. Við litum við í kaffi til Halldórs Páls, skoðuðum myndir og spjölluðum um ljósmyndaáhugann, sem síst fer minnkandi.

Mér finnst bara svo gott að vera úti í náttúrunni

Ljósmyndaáhuginn hefur alltaf verið til staðar hjá Halldóri Páli frá því hann var ungur. Árið 2011 tók hann málin fastari tökum og fór að taka myndir af meiri áfergju og með öflugri búnað. „Ég fæ mér góða myndavél og fer að mynda norðurljós og stunda næturmyndatöku. Þar byrjaði ég. Svo færist áhuginn yfir í fuglana, en það finnst mér mjög gaman. Það er heldur ekkert langt að fara til þess að ná góðum myndum af þeim,“ segir Halldór Páll. Aðspurður um hvað það sé við ljósmyndunina sem togar svona fast í hann segir Halldór: „Mér finnst bara svo gott að vera úti í náttúrunni. Ég er náttúrukall. Hvort sem það er að vera með myndavélina, veiðistöngina eða byssuna. Bara að vera úti. Ég nærist á þessu, bara að vera einn með sjálfum mér og fuglasönginum, það finnst mér geggjað.“

Nær í þekkingu á Youtube með góðum árangri

Fuglaljósmyndun er dálítið sérhæfð grein innan ljósmyndunar. Þar spila saman búnaður, tækni og þolinmæði. Til þess að ná mynd af fugli á flugi þarf margt að ganga upp til þess að myndin verði skýr, í fókus og óhreyfð. Við spyrjum Halldór aðeins út í málið. „Ég er ekkert lærður í þessu. Ég er þó búinn að viða að mér miklum upplýsingum meðal annars af Youtube og þessháttar miðlum. Ég hef lært helling af því. Allar stillingar og fleira meðal annars,“ segir Halldór Páll. Rétt til þess að fræða þá lesendur sem hafa áhuga á tæknimálunum er Halldór Páll að taka myndir á Tamron 150-600 mm linsu og Nikon 7500 myndavél með crop flögu.

Halldór Páll Kjartansson.

Þúsundir ljósmynda til af uglunni og ungum hennar

Halldór Páll komst á snoðir um ugluna eftir ýmsum leiðum. Það fór svo að hann fann hana og hefur síðan tekið ógrynni af myndum af henni og ungunum sem sýna vel hvernig lífi uglan lifir. „Ég fór að sniglast þarna og fann hana og þá var stanslaust flug þar sem uglan bar æti í ungana, mýs eða unga. Þarna voru fullt af tækifærum til þess að festa fuglana á mynd. Ég á orðið einhverjar 3-4000 myndir af uglum. Bæði fullorðnum og ungum.“ Þá ber þess að geta ef einhverjir óska eftir því að fá myndir af uglunni eða ungunum sem margar eru stórglæsilegar má hafa samband við Halldór Pál. Myndirnar voru fengnar til prentunar með góðfúslegu leyfi Halldórs, en undirrituðum fannst nauðsynlegt að þær kæmu fyrir sjónir sem flestra.

Nýjar fréttir