-4.8 C
Selfoss

Heilbrigðisstofnun Suðurlands gert kleift að opna 4 rými fyrir líknandi meðferð

Vinsælar fréttir

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra hefur ákveðið að tryggja Heilbrigðisstofnun Suðurlands aukið fjármagn til að koma á fót 4 rýmum þar sem unnt verður að veita líknar- og lífslokameðferð. Ákvörðunin er í samræmi við tillögur starfshóps um framtíðarskipan líknarþjónustu á Íslandi, þar sem lagt er til að heilbrigðisstofnanir á landsbyggðinni setji á fót líknarrými til að veita almenna líknarmeðferð fyrir íbúa umdæmisins sem þess þurfa með. Þetta er jafnframt liður í aðgerðum til að draga úr vanda bráðamóttöku Landspítala, samanber tillögur átakshóps þess efnis fyrr á árinu, og bæta um leið aðbúnað sjúklinga sem þurfa á líknar- og lífslokameðferð að halda við lok lífs og aðstandenda þeirra.

Samhliða opnun rýmanna verður komið á fót ráðgefandi líknarteymi við stofnunina sem mun styðja við líknarþjónustu í umdæminu. Teyminu er ætlað að stýra meðferð sjúklinga sem leggjast þar inn og vera til stuðnings fyrir hjúkrunarfræðinga og lækna í heilsugæslu og á hjúkrunarheimilum.

Vonir standa til að með þessu megi styðja betur við líknarþjónustu í heimabyggð í samræmi við áherslur heilbrigðisstefnu til ársins 2030 um að veita rétta þjónustu á réttum stað. Þetta er jafnframt mikilvægur liður í því að tryggja betur mannhelgi og virðingu fyrir mannlegri reisn við hjúkrun og umönnun fólks sem nálgast lífslok heldur en unnt er að gera í biðrýmum eða hefðbundnum sjúkrarýmum.

Líknarrýmin verða rekin í tengslum við þau 18 rými sem rekin eru við sjúkradeildina á Selfossi og er stefnt að því að þau verði opnuð síðar á þessu ári. Áætlaður árlegur viðbótarkostnaður vegna þessarar þjónustu nemur 43 milljónum króna.

 

Nýjar fréttir