-7.2 C
Selfoss

Hellisskógur – Stóraukning í aðsókn

Vinsælar fréttir

Á þessu hausti eru 35 ár liðin frá upphafi Hellisskógar. Þann 1. október 1985 var skrifað undir samning á milli Skógræktarfélags Selfoss og Selfossbæjar um afnot að landi sveitarfélagsins í Hellismýri undir skógrækt og gerð útivistarsvæðis. Þá fannst ekkert tré á svæðinu, en samt fékk svæðið fljótlega nafnið Hellisskógur sem lýsir mikilli bjartsýni um góðan árangur. Í upphafi var svæðið 53,8 ha að stærð en árið 1994 var gerður nýr samningur og svæðið stækkað upp í núverandi stærð, 126 ha.

Frá upphafi var það yfirlýst stefna Skógræktarfélagsins að rækta upp fjölbreytilegan og aðlaðandi skóg sem hentaði vel til útivistar. Þrátt fyrir skógleysi fyrstu árin var hafist handa við að bæta aðgengi, leggja vegi og byggja upp göngustígakerfi um svæðið. Sú vinna hefur staðið óslitið síðan samhliða plöntun trjáa.

Stærstu hluti verkefna í skóginum hefur verið unninn af sjálfboðaliðum og félagsmönnum í Skógræktarfélagi Selfoss. Þar hefur stór hópur fólks lagt á sig ómælda vinnu gegnum tíðina. Frá upphafi hefur sveitarfélagið stutt uppbyggingu í Hellisskógi með fjárframlögum og vinnuframlagi vinnuskóla og áhaldahúss auk atvinnuátaksverkefna. Skógræktarfélagið metur stuðninginn mikils. Án hans hefði uppbygging þessa frábæra útivistarsvæðis eins og það er í dag aldrei orðið.

Sveitarfélagið hefur tekið smám saman við viðhaldi vegakerfisins. Þetta hefur gerst samhliða aukinni umferð gangandi, hlaupandi, hjólandi eða akandi gesta um svæðið. Nú orðið eru þetta bæði heimamenn í Árborg en einnig fjöldi ferðamanna á leið um landið sem heimsækja Hellisskóg. Félagið hefur annast skipulag og stjórnað verkefnum og uppbyggingu á svæðinu. Stígum er sífellt að fjölga og senn kemur að því að svæðið verður fullgróðursett.

Á þessu ári hefur orðið mikil aukning á umferð í Hellisskóg. Fólk leitar í auknu mæli út í náttúruna og inn í skóginn í leit að útrás fyrir hreyfingu eða afslöppun. Í skóginum er alltaf hægt að finna skjól fyrir veðrum og góður staður til að finna hugarró í því ástandi sem hefur ríkt síðustu mánuði.

Sökum aðsóknar var nauðsynlegt núna í haust að stækka bílastæðið innan við aðalinnganginn í Hellisskóg. Síðustu mánuði hefur gamla bílastæðið verið yfirfullt dag eftir dag.

Starfsmenn áhaldahúss Árborgar unnu að stækkun í síðustu viku og fórst það verk vel úr hendi.

Skógræktarfélagið þakkar kærlega fyrir verkið og bíður gesti og gangandi áfram velkomna í Hellisskóg.

Örn Óskarsson og

Snorri Sigurfinnsson.

 

 

Nýjar fréttir