-6.1 C
Selfoss

Þakkir í aðdraganda jóla

Vinsælar fréttir

Þegar börn byrja að ganga menntaveginn er leikskólinn fyrsta skólastigið í þeirra skólagöngu. Starf leikskólakennara er gífurlega mikilvægt fyrir samfélagið allt, þrátt fyrir að leikskólakennarar hugsi þar fyrst og fremst um nemendur sína. Í lögum um leikskóla segir að í leikskólum skuli velferð og hagur barna hafður að leiðarljósi í öllu starfi.
Það var ljóst í fyrstu bylgju Covid19 að ærið verkefni biði stjórnenda leikskóla, leikskólakennara og starfsmanna. Á sama tíma var lítil sem engin þekking á faraldrinum.
Starfsfólk allra leikskóla sýndi mikinn kjark, þolinmæði og útsjónarsemi í starfi sínu þegar þurfti að hugsa lausnarmiðað og veita nemendum leikskólanna þá kennslu, umönnun og umhyggju sem ber að gera. Með frábæru starfsfólki leikskólanna á Suðurlandi tókst að halda starfi að mörgu leyti í föstum skorðum. Einnig má þakka foreldrum fyrir gott samstarf og þeirra skilning á þeim aðstæðum sem leikskólarnir voru í. Nú í þessari þriðju bylgju hefur starfið aftur litast af miklum takmörkunum og hefur því að nýju þurft að hugsa í lausnum til að geta unnið samkvæmt aðalnámskrá leikskóla sem og stefnum hvers leikskóla fyrir sig.
Við fögnum því þeirri ákvörðun sveitarfélagsins Árborgar að loka leikskólum milli jóla og nýárs. Starfsfólk hefur lýst yfir mikilli ánægju, auðmýkt og þökkum við fræðslunefnd sem og bæjarstjórn Árborgar fyrir þá ákvörðum.
Um leið og við þökkum fyrir hlýhug óskum við öllum gleðilegra jóla og hlökkum við mikið til að koma aftur í vinnu eftir jólafrí og halda áfram því flotta faglega starfi sem fram fer á leikskólunum.

Fyrir hönd 8. deildar félags leikskólakennara,
Helga Þórey Rúnarsdóttir
Jóna Kristín Jónsdóttir
Þórdís Guðrún Þormóðsdóttir

Nýjar fréttir