-7.6 C
Selfoss

Það vekur furðu ástandið í skólamálum í Árborg   

Vinsælar fréttir

Fulltrúar D – lista í sveitarfélaginu Árborg harma þá stöðu sem upp er komin í skólamálum sveitarfélagsins og að þess skuli ekki hafa verið gætt að upplýsa foreldra um áform tengd breytingu á skólahverfum og tilfærslur á milli skólahverfa, svo sem um það að börn eru færð úr einum skóla í annan. Með fyrirhugaða opnun Stekkjaskóla í haust hafa nemendur í 2-4 bekk í Vallaskóla og Sunnulækjarskóla sem hafa lögheimili í hverfum sem munu tilheyra Stekkjaskóla, verið flutt um skóla án aðkomu foreldra þeirra. Foreldrar þessara nemenda hafa kvartað undan samráðs- og upplýsingaleysi við sig og hafa komið þeim kvörtunum á framfæri til fræðslusviðs og kjörnafulltrúa. Fulltrúar D-listans þekkja þessi vinnubrögð vel þar sem meirihlutinn hefur ítrekað haldið upplýsingum frá kjörnum fulltrúum. Foreldrar hafa farið þá leið að upplýsa okkur fulltrúa minnihlutans um þetta samskiptaleysi meirihlutans. Það er með öll óásættanlegt að foreldrar þurfi að fara þá leið að kæra sveitarfélagið til Menntamálaráðuneytisins vegna stjórnvaldsákvörðunar þar sem þeim finnst ekki á sig hlustað eða þurfa að færa lögheimili sitt svo barnið geti stundað nám í þeim skóla sem þau kjósa.  Við tökum undir þessar áhyggjur foreldrar af stöðu mála.  

Meirihlutinn hefur með aðgerða- og sinnuleysi sínu  dregið lappirnar við byggingu nýs skóla, með tilheyrandi kostnaði fyrir bæjarsjóð upp á að lágmarki ca 500 milljónir í bráðabirgðalausnum, sem að hluta  til fæst ekki endurgreiddur til baka. Úrræði af þessu tagi er lakara að gæðum en ef um nýjan skóla væri að ræða og telja undirritaðir að ekki hafi verið unnið nógu hratt að undirbúningi nýs skóla og ekki gætt að forgangsröðun í þágu barna út frá lögbundnum verkefnum sveitarfélaga og farið í önnur verkefni sem eru ekki lögbundin og dregið til sín fjármagn.   

Nú verður meirihlutinn að bregðast við þeirri stöðu sem upp er komin í skólamálum hér í Árborg þannig að skapast geti sátt hjá nemendum og foreldrum þeirra um hverfaskóla í stað þess virðingarleysis sem þau sæta nú frá meirihluta bæjarstjórnar Sveitarfélagsins Árborgar.    

Bæjarfulltrúar D-lista í Sveitarfélaginu Árborg 

 

Nýjar fréttir