1.7 C
Selfoss

Lúðrablástur í Rangárþingi

Vinsælar fréttir

Þann 12. júní sl. heimsótti Skólahljómsveit Kópavogs Tónlistarskóla Rangæinga og hélt tónleika í íþróttahúsinu á Hellu. Skólahljómsveitin var í ferðalagi um Suðurland og hafði samband varðandi möguleika á að halda tónleika í samstarfi við Tónlistarskóla Rangæinga. Skólinn tók svo sannarlega vel í það þar sem nú er hafin uppbygging á kennslu á blásturshljóðfærum við skólann. Undanfarin ár hafa ekki verið margir nemendur í námi á blásturshljóðfæri, nema kannski þverflautu. Nú er hinsvegar áhersla í skólanum á að endurvekja Lúðrasveit Rangæinga og var þetta því kjörið tækifæri fyrir nemendur og aðra á svæðinu að sjá hvernig lúðrasveit getur verið.

Skólahljómsveit Kópavogs er ein stærsta skólahljómsveit landsins og einnig ein sú besta. Össur Geirsson hefur byggt upp frábært starf sem svo sannarlega var mikill heiður að fá í heimsókn. Dagskrá tónleikanna var heldur betur fjölbreytt og skemmtileg, allt frá Vivaldi yfir í kvikmyndatónlist og Þursaflokkinn. Elstu nemendur sveitarinnar léku einleik með hljómsveitinni, á piccoloflautu, klarinett og altó saxófón. Einnig lék básúnuoktett tvö lög inn á milli. Í lok tónleikana tók svo einn nemendanna við sprotanum frá Össuri og stjórnaði fyrri hluta uppklapps lagsins þar sem hún ætlaði svo að taka sóló í seinni hluta lagsins. Hún skemmti sér hinsvegar svo vel að hún gleymdi að rétta sprotann aftur á Össur og klúðraðist byrjunin á sólóinu en það gerði allt miklu skemmtilegra og byrjaði hún bara aftur og hljómsveitin beið!

Það er nefnilega allt í lagi að gera mistök og er það ein besta leiðin til að læra og þau kenna manni bara fleiri hluti en annars.

Hljóðfæraleikarar og gestir skemmtu sér alveg konunglega og það er það sem skiptir öllu máli. Ég vona svo sannarlega að þessi viðburður hafi kveikt einhvern áhuga á blásaranámi og að við getum boðið upp á fleiri svona viðburði fljótlega aftur.

Sandra Rún Jónsdóttir, skólastjóri Tónlistarskóla Rangæinga.

Nýjar fréttir